Fagráð Sviðslistamiðstöðvar Íslands hefur lokið yfirferð umsókna um þýðingarstyrki sem auglýstir voru 19. febrúar 2025, með umsóknarfresti til 19. mars. Alls bárust 11 umsóknir og var ljóst að áhuginn á því að koma íslenskum leikverkum á framfæri á alþjóðavettvangi er mikill og metnaður umsækjenda til fyrirmyndar.
Styrkir eru veittir til þýðinga á frumsömdum íslenskum leikverkum yfir á önnur tungumál. Markmið styrkjanna er að auka sýnileika og eftirspurn eftir íslenskum leikverkum erlendis, hvort sem um ræðir sýningar, útgáfu eða kynningu á erlendum vettvangi.
Í ár var ákveðið að veita styrki til þriggja verkefna samtal 650 þúsund krónur.
Styrk hljóta eftirfarandi verkefni:
• „Sjö ævintýri um skömm“ eftir Tyrfing Tyrfingsson í þýðingu Marie Sophie Besson á frönsku. Verkið verður gefið út í bókaformi hjá Maison d’Europe et d’Orient (l’Espace d’un instant) í Frakklandi.
• Styrkupphæð: 250.000 kr.
• „Heim“ eftir Hrafnhildi Hagalín Guðmundsdóttur í þýðingu Brian FitzGibbon á ensku. Leiklestrar eru fyrirhugaðir í sendiráðum Íslands í Berlín, Osló og Helsinki. Þýðingunni verður dreift af Nordiska ApS.
• Styrkupphæð: 250.000 kr.
• „Árið án sumars“ eftir Marmarabörn í þýðingu Sögu Kjerúlf Sigurðardóttur á ensku. Verkið verður sýnt í Rosendal Teater í Noregi árið 2026, og kynningar fara fram í samstarfi við Reykjavík Dance Festival.
• Styrkupphæð: 150.000 kr.
Fagráðið þakkar kærlega fyrir fjölbreyttar og vandaðar umsóknir. Næsta úthlutun verður auglýst síðar á árinu.