Sviðslistamiðstöð Íslands kynnir með ánægju að opnað hefur verið fyrir umsóknir um þýðingastyrki. Umsóknarfrestur er til 19. mars 2025, kl. 16:00.
Við viljum vekja sérstaka athygli á því að skilyrði styrkveitinga hafa verið rýmkuð. Nú er ekki lengur krafa um að fyrir liggi vilyrði fyrir sýningu verksins erlendis. Þess í stað er lögð áhersla á að umsækjendur leggi fram greinargerð um fyrirhugaða kynningu og dreifingu þýðingarinnar.
Markmið þýðingastyrkjanna er að vekja áhuga, auka sýnileika og eftirspurn eftir íslenskum leikritum og sviðslistaverkum á alþjóðavettvangi.
Styrkirnir eru ætlaðir höfundum, leikstjórum, framleiðendum eða fulltrúum leikhúsa og hátíða sem hyggjast þýða frumsamin íslensk leikverk á önnur tungumál. Leikverkið þarf að hafa verið frumsýnt á Íslandi áður en sótt er um þýðingu.
• Þýðingar á frumsömdum íslenskum leikverkum yfir á önnur tungumál.
• Textun (subtitle) á íslenskum sviðsverkum fyrir sýningar utan Íslands.
Athugið:
• Sviðslistamiðstöð fullfjármagnar ekki þýðingar.
• Þýðingin skal unnin beint úr íslensku.
• Æskilegt er að þýðandi hafi það tungumál sem þýtt er á að móðurmáli.
• Stuðningur við aðlögunar- eða framleiðslukostnað fellur ekki undir þennan styrk.
Umsóknir skulu berast rafrænt í gegnum umsóknarformið sem finna má á heimasíðu Sviðslistamiðstöðvar. Umsóknarfrestur rennur út 19. mars 2025, kl. 16:00.
Nánari upplýsingar um skilyrði og umsóknarferlið má finna á heimasíðu okkar.
Við hvetjum alla áhugasama til að nýta þetta tækifæri til að kynna íslensk sviðslistaverk fyrir alþjóðlegum áhorfendum.