Sex borgarhátíðir hljóta samstarfssamning við Reykjavíkurborg næstu 3 árin. Þar af eru tvær sviðslistahátíðir, Reykjavík Dance Festival sem fær áframhaldandi samstarfssamning og Óperudagar í Reykjavík sem hlýtur borgarhátíðarstyrk í fyrsta sinn.
Það er samhljóða niðurstaða sérstaks faghóps Reykjvíkurborgar að nýliðinn, Óperudagar, og Reykjavík Dance Festival sem hefur verið borgarhátíð frá árinu 2020, gegni hvor um sig lykilhlutverki í sinni listgrein og sinni jafnframt báðar vel því mikilvæga hlutverki að efla mannlíf og menningu í Reykjavík. Þær eigi því fullt erindi til að hljóta titilinn borgarhátíðir Reykjavíkur næstu þrjú árin.
Reykjavík Dance Festival hlýtur 7,5 milljón króna árlegan styrk og Óperudagar í Reykjavík hlýtur 5 milljón króna árlegan styrk. Hátíðirnar eru gífurlega mikilvægur vettvangur til þess að kynna íslenkar sviðslistir bæði fyrir innlendum en þó sérstaklega fyrir alþjóðlegum gestum.