Í nýjasta hlaðvarpi Sviðslistamiðstöðvar tók Salka Guðmundsdóttir viðtal við tvo gesti úr íslensku menningarsenunni: Jónu Hlíf Halldórsdóttur, forseta Bandalags íslenskra listamanna (BÍL), og Snæbjörn Brynjarsson, leikhússtjóra Tjarnarbíós. Í þættinum var farið yfir stöðu sjálfstætt starfandi sviðslistafólks og hvaða áskoranir og tækifæri blasa við.
Umræðan spannaði vítt svið, frá fjármögnun sviðslista, húsnæðismálum og kjarabaráttu til stærri spurninga um framtíðarsýn og mikilvægi sameiginlegrar stefnumótunar.
Snæbjörn lagði áherslu á mikilvægi Sviðslistasjóðsins fyrir fjölbreytni og framtíð sviðslistasenunnar á Íslandi:
„Sviðslistasjóður styður við nýja leikritun og frumsköpun en tryggir einnig fjölbreytni innan senunnar. Hann fjármagar allt frá dansi og óperum til barnasýninga og sirkuslistar. Hver einasta króna í sjóðnum hefur áhrif, ekki bara á núverandi ár heldur á framtíðina. Almennt séð eru mjög fáir möguleikar til fjármögnunar, og það gerir sviðslistasjóðinn enn mikilvægari.“
Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2025 stendur Sviðslistasjóður nokkurnveginn í stað, en næstu ár er gert ráð fyrir niðurskurði. Þetta er áhyggjuefni, þar sem sjóðurinn er helsta líftaug sjálfstæðu sviðslistanna. Árið 2019 nam hann 99 milljónum króna, en með tilliti til verðbólgu og vísitölu þyrfti hann í dag að vera um eða yfir150 milljónir króna til að halda sama verðgildi. Þrátt fyrir að þetta hljómi sem há upphæð er hún langt frá því að vera nægileg til að tryggja fjölbreytni og sanngjarnan aðgang fyrir ólíka hópa í sviðslistum.
Jóna Hlíf lýsti yfir áhyggjum sínum af því að margir sem hefja feril í sviðslistum brenni út áður en þeim tekst að koma sér almennilega fyrir:
„Þetta er fólk sem hefur fjárfest í sjálfu sér með löngu námi og mikilli vinnu. En þegar það kemur út í atvinnulífið eru fá úrræði í boði. Flestir þurfa að vinna sjálfboðavinnu til að koma sér á framfæri – eða snúa sér alfarið að öðrum störfum. Þetta er algjörlega óásættanlegt.“
Ein stærsta hindrunin fyrir sviðslistafólk er að stærstur hluti þeirra starfar sem verktakar án réttinda, eins og veikindadaga eða orlofs. Þetta hefur áhrif á lífsgæði þeirra og getur komið í veg fyrir faglega þróun.
Jóna Hlíf sagði:
„Við þurfum kerfi sem grípur fólk á milli verkefna, eins og sænska Alliansen. Það kerfi tryggir listamönnum grunnlaun á milli verkefna og veitir stöðugleika sem nýtist fólki sem starfar í sviðslistum.“
Þegar spurt var um stærsta vandamál sviðslistafólks í dag nefndu bæði gestirnir og Salka rýmisvanda, sem hefur lengi verið brennandi mál.
Salka sagði:
„Í fyrra spurðum við sviðslistafólk í hlaðvarpsþætti hvað þau myndu breyta ef þau hefðu töfrasprota. 70% nefndu rýmin – það skortir aðstöðu til að vinna, til að sýna og til að þróa verkefni. Dansarar, sirkuslistafólk og óperuhópar eiga öll í vandræðum vegna óhentugra rýma. Það vantar allt frá blackbox-rýmum til fjölnota aðstöðu.“
Skortur á aðstöðu hefur lengi verið viðvarandi vandamál fyrir sviðslistir á Íslandi. Í miðbæ Reykjavíkur hefur húsnæði fyrir sviðslistir vikið fyrir hótelum, veitingastöðum og ferðaþjónustu, sem hefur gert sjálfstæðum leikhúsum erfitt fyrir að finna viðeigandi sýningarrými. Þetta stefnuleysi í húsnæðismálum hefur einnig haft áhrif á tónlistargeirann, þar sem tónlistarfólk stendur frammi fyrir svipuðum hindrunum. Afleiðingin er takmörkuð geta listafólks til að vaxa og dafna í íslensku menningarlífi.
Snæbjörn bætti við:
„Ef hvert rými hefur sinn eigin framkvæmdastjóra og yfirbyggingu getur það orðið óhagkvæmt. Lausnin gæti falist í því að stækka Tjarnarbíó, þróa rými í Laugarnesi eða skapa stærri fjölnota húsnæði. Þetta þarf að hugsa vel og mótaðar hugmyndir þurfa að koma frá listafólki, ekki stjórnmálamönnum.“
Í umræðunni voru gestirnir sammála um að skýr stefna, vel unnin sviðslistastefna og sameiginleg rödd listafólks væru lykilatriði til að ná fram breytingum.
Jóna Hlíf sagði:
„Við verðum að hætta að vera meðvirk og segja skýrt hvað við viljum. Ef við ætlum alltaf bara að vera ‘kúl listamaðurinn’ sem lætur sig hafa það, fáum við aldrei neitt. Við þurfum að hafa skýr skilaboð og sameiginlega sýn.“
Þrátt fyrir margar áskoranir tóku allir þátttakendur fram að íslenska sviðslistasenan blómstrar, þökk sé hæfileikum, frumkvæði og ástríðu listafólks.
Salka lauk þættinum á jákvæðum nótum:
„Sýningarnar sem við sjáum eru ótrúlega fjölbreyttar og spennandi. Ímyndið ykkur bara hvað við gætum gert ef við byggjum upp sterkari grunn undir þessa starfsemi!“
Hlustaðu á þáttinn í heild sinni
Þetta var aðeins brot af þeim áhugaverðu umræðum sem fóru fram í þættinum. Hlustaðu á allan þáttinn hér: