Sviðslistamiðstöð Íslands hefur úthlutað styrkjum til fimm danshöfunda til að taka þátt á Tanzmesse 2024, sem haldin verður í Düsseldorf. Umsóknirnar voru margar og valið erfitt, en að lokum urðu Rósa Ómarsdóttir, Ásrún Magnúsdóttir, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, Birta Ásmundsdóttir og Katrín Gunnarsdóttir fyrir valinu.
Í valnefnd voru Tinna Grétarsdóttir framkvæmdastjóri Dansverkstæðisins og Ásgerður Gunnarsdóttir hjá DansIT í Þrándheimi.
Tanzmesse er ein stærsta danshátíð heims þar sem listafólk, framleiðendur og dansunnendur frá öllum heimshornum koma saman til að sýna og skoða nýjustu verk samtímadansins. Á hátíðinni verða ýmsir viðburðir, þar á meðal sýningar, málþing og vinnustofur. Sviðslistamiðstöð Íslands mun einnig vera með bás á hátíðinni þar sem danshöfundar sem starfa á Íslandi geta kynnt verk sín og tengst alþjóðlegum samstarfsaðilum.
Við óskum styrkþegum alls hins besta og hlökkum til að fylgjast með framgöngu þeirra á Tanzmesse 2024, þar sem þau munu kynna íslenska dansmenningu á alþjóðlegum vettvangi.