Sviðslistamiðstöð Íslands hefur úthlutað ferðastyrkjum samkvæmt tillögum fagráðs miðstöðvarinnar. Ferðastyrkirnir voru auglýstir til umsóknar í byrjun maí, og alls bárust fimm umsóknir að þessu sinni. Úthlutað var styrkjum til fjögurra spennandi verkefna. Markmið þessara styrkja er að vekja áhuga og eftirspurn erlendis á sviðsverkum frá Íslandi.
Eftirfarandi verkefni hlutu ferðastyrki:
Ólöf Ingólfsdóttir, dansari og danshöfundur, fékk 200.000 krónur til að sýna verkið "Eitthvað um skýin" (Something About Clouds) á Festival Quartiers Danses í Montreal, sem fer fram 5. - 15. september 2024. Ólöf var tilnefnd til tveggja Grímuverðlauna árið 2024, bæði sem danshöfundur og dansari ársins fyrir verkið "Sjö ljóð úr óskrifaðri ljóðabók".
Rósa Ómarsdóttir hlaut 525.000 krónur til að sýna verkið "MOLTA" í Dansehallerne í Kaupmannahöfn, 26. - 28. september 2024. Molta hlaut tvenn verðlaun á nýlokinni Grímuverðlaunahátíð. Rósa var valin danshöfundur ársins og Guðný Hrund Sigurðardóttir, Hákon Pálson og Rósa Ómarsdóttir fengu verðlaun fyrir leikmynd ársins. Molta ásamt Rómeó <3 Júlía Íslenska dansflokksins verða þær tvær sýningar frá Íslandi sem verða á dagskrá í nýju húsnæði Danshallerne í Kaupmannahöfn í haust.
Ð festival fékk 450.000 krónur til að styðja við sýningu sex einstaklingsverkefna útskriftarnemenda úr dansdeild Listaháskóla Íslands á Söltumatu Tansu Lava í Eistlandi, Dans í Blekinge í Svíþjóð og Dance Theatre MD í Finnlandi, 4. - 13. október 2024. Styrkurinn mun veita nýútskrifuðum dönsurum ómetanlegt tækifæri til að kynna verk sín á alþjóðlegum vettvangi.
Bernd Ogrodnik fékk 100.000 krónur til að sýna "Metamorphosis" á Pesta Boneka brúðulistahátíðinni í Indonesíu, 21. - 27. október 2024. Bernd er einn af fremstu brúðulistamönnum landsins og hefur sýnt verk sín um allan heim á liðnum áratugum. Metamorphosis var frumsýnt árið 2006.
Sviðslistamiðstöð Íslands óskar styrkþegum innilega til hamingju og hlakkar til að fylgjast með viðtökum þeirra erlendis. Góða ferð!
Photo: MOLTA - Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir