Sviðslistamiðstöð Íslands hefur valið þrjá hópa til þátttöku á CINARS, sem fer fram í Montréal, Kanada, 11.-16. nóvember 2024. Hóparnir Marble Crowd, Trigger Warning og Handbendi munu kynna verkefni sín á þessum mikilvæga alþjóðlega sviðslistamarkaði.
Á CINARS munu fulltrúar þessara hópa taka þátt í Nordic Pulse, sameiginlegum kynningarviðburði Norðurlandanna. Sviðslistamiðstöðin verður einnig með kynningarbás undir nafninu Nordics Combined, í samstarfi við Danse- og teatersentrum í Noregi, Slots- og kulturstyrelsen í Danmörku, Kulturrådet og Konstnärsnämnden í Svíþjóð, og Cirkus & Dance Info Finland.
Marble Crowd - ØLAND
Marble Crowd er hópur listafólks frá Reykjavík sem leggur áherslu á stórar sviðsetningar og nýstárlegar sýningar. Verkefnið ØLAND fjallar um hóp skipsbrotsfólks sem reyna að endurskapa samfélag úr rústum fortíðar. Marble Crowd hefur hlotið viðurkenningu frá TANZ Magazine og unnið til verðlauna á Grímunni.
Trigger Warning - Stroke
Trigger Warning er leikhópur sem vinnur með heimildarleikhús og einstaklingssögur. Verkefnið Stroke er einleikur byggður á reynslu Virginiu Gillard af heilablóðfalli og hennar glímu við afleiðingar þess. Verkefnið blandar saman myndböndum, hljóðupptökum og trúðleik til að skapa einstaka sýningu sem hefur fengið frábærar viðtökur hér á landi. Stroke hlaut þrjár tilnefningar til Grímuverðlauna 2024, þ.m.t. fyrir sýningu ársins, hvatningarverðlaun og leikkona ársins í aðalhlutverki.
Handbendi - Meadow og Follow the Wind Home
Handbendi Brúðuleikhús sérhæfir sig í brúðuleikhúsi fyrir unga áhorfendur. Verkefnið Meadow fjallar um minningar og umbreytingar náttúrunnar, en Follow the Wind Home um vináttu og sjálfsleit. Handbendi hefur áður hlotið ýmsar viðurkenningar, m.a. Eyrarrósina.
Við óskum þessum verkefnum innilega til hamingju og hlökkum til að sjá þau kynna sviðslistir frá Íslandi á alþjóðavettvangi.