Þann 15. september auglýsti Sviðslistamiðstöðin eftir sviðslistafólki og sviðslisthópum til að taka þátt á CINARS í Montreal dagana 7. - 12. nóvember.-
Fagráð Sviðslistamiðstöðvarinnar ásamt Vigdísi Jakobsdóttur listrænum stjórnanda Listahátíðar í Reykjavík og stjórnarmeðlimi miðstöðvarinnar hafa valið eftirfarandi sviðslistahópa til að kynna verkefni sín á markaðnum:
Stertabenda - Góðan daginn Faggi
Abendshow og MurMur - Club Romantica
Hringleikur - Allra veðra von
Sviðslistamiðstöð veitir ferðastyrk og greiðir þátttökugjaldið á hátíðina.
Sviðslistamarkaðurinn CINARS heldur sölusýningu á tveggja ára fresti og þykir einn mikilvægasti vettvangur fyrir fagfólk innan sviðslista í Norður Ameríku. Þar leiða sviðslistafólk, skipuleggjendur, kaupendur og framleiðendur saman hesta sína oft með góðum árangri.
Sviðslistamiðstöð Íslands efnir í ár til samstarfs með hinum norrænu kynningarmiðstöðvunum undir nafninu Nordics Combined. Undir merkjum Nordics Combined munum við standa að sameiginlegum Nordic Square kynningarbásum, Nordic Pulse kynningardagskrá og Nordic Party. En alls munu 22 sviðslistamenn og hópar frá Norðurlöndunum kynna verk sín.