Með því að smella á „Samþykkja“ staðfestir þú að vafrakökur séu geymdar í tækinu þínu til að auka notendaupplifun, greina notkun síðunnar og aðstoða við markaðsstarf okkar. Skoðaðu persónuverndarstefnu okkar fyrir frekari upplýsingar.
Skilmálar um notkun á vafrakökum
Þegar þú heimsækir vefsíður gætu þær geymt eða sótt gögn í vafrann þínn með vafrakökum (e. cookies). Þetta er oft nauðsynlegt fyrir grunnvirkni vefsíðunnar. Vafrakökurnar gætu verið notaðar til markaðssetningar, greiningar eða til að sérsníða síðuna, t.d. til að geyma kjörstillingar þínar.

Persónuvernd er okkur mikilvæg. Þess vegna hefur þú möguleika á að slökkva á ákveðnum tegundum af vafrakökum sem eru ekki nauðsynlegar fyrir grunnvirkni vefsíðunnar. Þessi útilokun getur haft áhrif á upplifun þína af vefsíðunni.
Stjórnun á vafrakökum eftir flokkum
Nauðsynlegt
Alltaf virkt
Þessar vafrakökur eru nauðsynlegar fyrir grunnvirkni síðunnar.
Markaðssetning
Þessar vafrakökur eru notaðar til að birta auglýsingar sem eiga betur við þig og áhugamál þín. Þær geta einnig verið notaðar til að mæla árangur auglýsingaherferða eða takmarka fjölda skipta sem þú sérð auglýsingar. Markaðsfyrirtæki setja þær inn með leyfi rekstraraðila vefsíðunnar.
Persónulegar stillingar
Þessar vafrakökur gera vefsíðunni kleift að muna stillingarnar þínar (svo sem notendanafn, tungumál eða svæði) og veita betri og persónulegri upplifun.
Greining
Þessar vafrakökur hjálpa rekstraraðila vefsíðunnar að fylgjast með virkni síðunnar, hvernig gestir nota hana og hvort það komi upp tæknileg vandamál. Þessar vafrakökur safna ekki upplýsingum sem auðkenna gesti.
3.27.25

Íslenskt ávarp á Alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars 2025 - Birnir Jón Sigurðsson

Ekkert er jafn vont og lélegt leikhús. Ekkert er jafn yfirgengilega ömurlegt og slæmt sviðsverk. Að sitja í sal og horfa á líkama sprikla og segja eitthvað sem þú tengir ekki við, sem þú ert ósammála, sem þú nennir ekki. Þú gengur úr salnum, út undir regnþrunginn dimman himininn, þrammar á barinn og rakkar sýninguna í þig, finnur til öll lýsingarorðin um hversu átakanlega hrikaleg upplifunin var - þetta var glatað, þetta var cringe, hvað voru þau eiginlega að pæla þegar þau settu þetta á svið, hvernig dettur þeim í hug að sviðsetja svona klisjur, þetta hefði átt að vera svona, þetta hefði átt að vera hinsegin, það var þetta sem hefði átt að gerast, þetta hér var eini bjarti punkturinn en svo tókst þeim einhvernveginn að klúðra því líka.

Sviðslistir eru ófyrirgefanlegur vettvangur, það ætti að girða leikhúsið af með lögregluborðum fyrir glæpina sem það hefur framið á athygli fólks. Að fá fólk inn í sal, troða því saman hliði við hlið í þröng sæti. Sitjandi í myrkrinu í lélegri loftræstingu og sumir hósta og sumir skrjáfa og aðrir snúa sér við og sjá hverjir eru í salnum og sumir spjalla og sumir setja símann á silent og aðrir gleyma að setja símann á silent og svo slokkna ljósin og á svið er sett atburðarás.

Kannski hundrað manns saman, kannski fimm hundruð, sem deila þessari reynslu, sem fá að hverfa inn í fjöldann, upplifa í hópi, í húsi, í myrkri. Orkan, tengslin milli flytjenda á sviðinu, sögur, hreyfingar, tónlist, hljóð, dans. Finna fyrir vandlega handmótuðum tímanum. Finna öldur samkenndar leggjast yfir myrkvaðan salinn, finna sætin hristast þegar hlátrasköllinn kútveltast um bekkina. Finna gæsahúðina seytla niður veggina þegar sannleikurinn smýgur inn í þig á milli línanna. Sjá fullkomnunina þegar allt kemur saman í þessu augnabliki sem næst hvergi annars staðar en í leikhúsi. Þegar allt gengur upp. Þegar augnablikið verður eilíft í huga hóps sem situr í myrkvuðum sal, kannski hundrað saman, kannski fimm hundruð. Standa upp og klappa, því þetta var eitt af þessum einstaklega sjaldgæfu kvöldstundum. Þar sem þú upplifðir hið fullkomna andartak.

Leikhúsið er stofnun sem sérhæfir sig í því, ímyndið ykkur, handverksfólk augnabliksins.

Stundum mætti heyra saumnál detta.

Stundum heyrist snöktið tipla á tánum um salinn.

Stundum er ekki hægt að halda áfram vegna hláturflóðbylgju.

Stundum sprettur fram sjálf fegurðin.

Stundum missa leikarar andlitið.

Stundum gengur allt upp.

Það gerist alls ekki alltaf.

Það gerist eiginlega aldrei.

En það er líka það dýrmætasta sem ég veit.

Og ég fer í leikhús til að safna þessum augnablikum.

Til að slíkt verði til þarf dirfsku og hugrekki.

Bravo á orðstofna í einmitt þeim orðum, dirfsku og hugrekki. Það krefst hugrekkis að setja saman atriði fyrir annað fólk, að standa svo á sviðinu, í búningi, í ljósum, í augliti kannski hundrað manns, kannski fimmhundruð, og geta sig hvergi falið. Það krefst dirfsku að standa á sviði og reyna að setja saman hið fullkomna augnablik, það er óðs manns æði. Það er djarft að dvelja í óvissunni. Að miða út í myrkrið – því að myrkrið er fullt af stjörnum. Í hinu fullkomna andartaki fangarðu eina slíka, bravo.

En það er ekki allt leikhús djarft, það er ekki allt leikhús hugrakkt. Það verðskulda ekki öll sviðsverk bravo.

Ekkert er jafn vont og lélegt leikhús.

En ekkert er jafn undursamlega stórfenglegt og leikhús þar sem flytjendur og áhorfendur, stundum kannski hundrað, stundum kannski fimmhundruð, fanga saman þessa stjörnu. Ganga svo úr salnum, út undir regnþrunginn dimman himininn, fullir af ljósi.

Um Birnir:

Birnir Jón Sigurðsson er sviðshöfundur sem leggur áherslu á ný, íslensk, frumsamin verk. Hann var hússkáld Borgarleikhússins 2022-23 þar sem hann skrifaði verkið Sýslumaður Dauðans og vinnur nú að enduruppsetningu samsköpunarverksins SUND í Þjóðleikhúsinu. Hann er einn af stofnendum Tóma rýmisins, æfinga- og tilraunarýmis í sviðslistum.

-
Aðrar fréttir
Allar fréttir
No items found.