Í nýjasta þætti Sviðsljóssins, hlaðvarps Sviðslistamiðstöðvar, er sviðsljósinu beint að leikhúsgagnrýni – hlutverki hennar, áhrifum og framtíð. Salka Guðmundsdóttir fær til sín tvo reynda gagnrýnendur, Siggu Jónsdóttur, leiklistargagnrýnanda á Heimildinni og sérfræðing hjá Leikminjasafni Íslands, og Þorgeir Tryggvason, leiklistargagnrýnanda á Morgunblaðinu og tónlistarmann.
Í þættinum ræða þau hvernig leikhúsgagnrýni hefur þróast, hvaða áhrif hún hefur á sviðslistir og hvernig breytt fjölmiðlaumhverfi hefur mótað umfjöllun um listir. Þau velta fyrir sér hvort fækkað hafi í hópi gagnrýnenda, hvort nýir miðlar eins og samfélagsmiðlar breyti vægi gagnrýni og hvaða áskoranir felast í því að fjalla um leikhús í litlu samfélagi.
Eitt af því sem kom fram í umræðunni var að þó að sviðslistir fái almennt töluverða umfjöllun í íslenskum fjölmiðlum, þá hefur virkum gagnrýnendum fækkað á síðustu árum. Samtímis hefur fjölbreytni sýninga aukist, sem þýðir að gagnrýnendur komast einfaldlega ekki yfir allt. „Það sem hefur breyst að einhverju leyti er fjölbreytnin og magnið af sýningum sem eru í boði,“ segir Sigga. „Ég kemst ekki yfir allar þær sýningar sem eru í boði.“
Þorgeir bendir á að þótt dagblöðum hafi fækkað, þá finnur menningarumfjöllun sér alltaf nýjar leiðir: „Til dæmis held ég að sýningar sem ná athygli allra fái alveg um sig opinbera umfjöllun á pari við það sem var þegar fleiri prentmiðlar voru starfandi.“
Einnig var rætt um hvernig samfélagsmiðlar og fyrirsagnadrifin umfjöllun hafa áhrif á listgagnrýni. Í umhverfi þar sem stuttar fyrirsagnir og klikkbeitur stjórna athyglinni, spyrja þau hvort dýpri greiningum og langri umfjöllun sé ógnað. „Við þurfum vettvang fyrir stærri, dýpri og málefnalegri umræðu um listformið sjálft,“ segir Sigga.
Eitt af umdeildari umræðuefnunum var stjörnugjöf í gagnrýni. Er hún nauðsynleg eða dregur hún athygli frá innihaldi gagnrýninnar? „Ég hef séð mjög fínar þriggja stjörnu sýningar sem eiga skilið miklu betri umfjöllun,“ segir Sigga. „En áhorfendur afskrifa sýninguna út frá lágri stjörnugjöf.“
Loks var rætt um varðveislu gagnrýni og menningarumfjöllunar. Ef prentmiðlar verða færri og netmiðlar hverfa eða breytast, hvað verður um þessa mikilvægu heimildir um leikhúsið í samtímanum? „Það er kaldhæðnislegt að stafræna byltingin hefur helst varðveitt prentað mál en ekki stafrænt,“ bendir Þorgeir á.
Umræðan leiddi í ljós að leikhúsgagnrýni stendur á tímamótum. Hún þarf nýjan vettvang, breiðari umfjöllun og skýrari stuðning ef hún á að lifa af sem lífvænleg faggrein. Þrátt fyrir áskoranir er ljóst að gagnrýni gegnir lykilhlutverki í sviðslistasenunni – ekki aðeins sem spegill fyrir listafólk heldur einnig sem brú á milli listanna og áhorfenda.
Hvernig tryggjum við að dýpri, málefnaleg umræða um listir fái áfram pláss í fjölmiðlum framtíðarinnar?
📢 Hlustaðu á þáttinn í heild sinni hér